Wednesday, September 2, 2009

Heimanám

Í morgunútvarpinu á Rás2 er rætt við einn sérfræðing í hverri viku. Í þessari viku, í morgun, var rætt við prófesor á mentasviði Háskóla Íslands, sérfræðing í málefnum nemenda. Fyrst ræddu þáttastrjórnendur við hana vítt og breitt um þær spurningar sem vakna í skólabyrjun ár hvert og síðan var síminn opnaður. Hlustendum var fjálst að spyrja um hvaðeina sem þeim lá á hjarta en aðeins eitt málefni bar á góma, börn og heimanám.

Allir sem hringdu inn sungu sama sönginn. Er heimanám ekki útelt og algjör óþarfi. Á nám ekki að fara fram að öllu leyti í skólanum. Við fullorðna fólkið reynum eftir fremsta megni að taka ekki vinnuna með okkur heim en svo ætlumst við til að börnin okkar geri það. Sérfræðingurinn hélt uppi vörnum fyrir heimanámið að vissu marki en þegar á hólminn var komið fannst mér helst að hún væri sammála hlustendum.

Ég er alveg sammála. Dóttir mín hefur frá því hún byrjaði í Kópavogsskóla glímt við allt of mikið heimanám á degi hverjum og ég hef alltaf verið alfarið á móti því. Í 2. og 3. bekk var hún stundum 2 - 3 tíma að klára heimanámið. Fullur vinnudagur fyrir lítið barn. Ég hef oft minnst á þetta við kennarana hennar í gegnum tíðina en fengið lítin hljómgrunn. Einhver hefði kannski haldið að sem fagmanneskja væri ég öryggið uppmálað þegar ég gagnrýni kennara barnsins míns en því er öfugt farið. Ég þori alls ekki að rugga bátnum og hef aldrei hátt eða skammast yfir neinu, eða yfirleitt ekki.

Þessi pistill gefur það auðvitað til kynna að í minni kennslu sé ekki farið fram á neitt heimanám en það er því miður ekki heldur rétt. Að hluta til vegna þess að ég verð að fylgja stefnu skólans sem ég kenni við og að hluta til vegna þess að ég hef ekki haft hugrekki í að marka mér mína eigin stefnu.

Það er rétt að árétta að rétt eins og sérfræðingurinn frá í morgun er ég ekki á móti heimanámi alfarið. Lestur er t.a.m. nauðsynlegur alveg frá fyrsta bekk og upp í þann 10 og til að halda ákveðinni tengingu milli heimilis og skóla er nauðsynlegt að senda ákveðin verkefni og bækur heim til að foreldrar kynnist því sem verið er að gera í skólanum. Ennfremur held ég að á unglingastigi stuðli eitthvað heimanám að agaðri og sjálfstæðari vinnubrögðum svo fremi að langstærsti hluti námsins fari fram í skólanum. Er það ekki málið?

Monday, August 17, 2009

Er ég nokkuð slæm móðir ef mér þykir dásamlegt að sumarfríinu í leikskólanum lauk í morgun og gleðigjafinn fór aftur á leikskólann?
Nei það held ég ekki. Hún er yndisleg og skemmtileg og við erum búnar að hafa það gott í sumarfríinu en hún er líka handfylli svo það var bara fínt að afhenda Brynju og Agnesi hana til umsjónar í morgun. Hún var líka ósköp kát að komast aftur á leikskólann.
Sumarfríinu hans Kjartans hagaði þannig til í sumar að hann gat ekki verið í sumarfríi á sama tíma og hún var í fríi og stóra hjálparhellan mín fór að þvælast um landið með pabba sínum á sama tíma svo ég var að miklu leyti ein með þessar tvær litlu. Ekkert vandamál svo sem en ljómandi gott að leiksólinn ég byrjaður aftur. Nú á ég enn eftir tvo mánuði í fæðingarorlofi með Þórgunni Öglu svo það er jafn gott að nýta tímann vel.
Í morgun nýtti ég tíman einmitt ljómandi vel og skellti mér í laugardalinn í kerrupúl. Algjörlega frábær hugmynd. virkilega góð hreyfing, útivera og sviti. Þórgunni hefur aldrei þótt það sérstaklega góð hugmynd að nota vagninn í annað en að sofa í honum og henni þykir alls ekki skemmtilegt að fara í göngutúra svo hún var ekki skemmtilegasta barnið í hópnum. Hún skal nú læra þetta samt blessunin. Á miðvikudaginn ætla ég nú samt að stíla inn á það að hún sofi á meðan. Held að það sé best.

Tuesday, July 28, 2009

Mikið væri nú ljúft ef yngsta barnið á heimilinu tæki snuddu. Hún hefur talsvert stundað það upp á síðkastið að vakna á nóttunni væntanlega vegna þess að tennurnar eru að pirra hana. Hún vaknar þá alls ekki til að drekka heldur þarf hún bara smá huggun og þá kæmi snuð sér vel.

Annars leit fyrsta tönnin dagsins ljós í vikunni, á meðan við vorum hjá mömmu og pabba. Nú bíð ég bara eftir því að hún feti í fótspor systur sinnar og prófi nýju tennurnar á geirvörtunum hennar mömmu sinnar.

Friday, July 24, 2009

Loksins

Þar settist hún loksins við tölvuna kerlingin. Mónótónískt líf mitt hefur verið svo svæfandi síðan sumarfríinu (skemmtilega stuðlað) hans Kjartans lauk að ég hef ekki haft frá nokkru að segja. Mæðgurnar eru búnar að hafa það notalegt í Þorlákshöfn síðustu vikuna og halda aftur heim á leið í dag. Sundlaugin í Þorlákshöfn fær hæstu einkunn og höfum við því haldið þar mikið til.

Um helstu fréttir hef ég þetta að segja. ESB JESS, Icesave helst ekki, unglingar sem keyra sofandi landshorna á milli; kaupi það ekki alveg hrátt.

Saturday, July 11, 2009

Lífið er yndislegt...

...ég geri það sem ég vil. Skildi maður verða leiður á því til lengdar að vera til???

Ég held varla.

Sunday, July 5, 2009

Frumburðurinn


Til að gæta fyllsta réttlætis þarf auðvitað að fjalla aðeins um frumburðinn líka. Hann er búinn að vera í föðurhúsum og leggur þar stund á reiðlistir. Þetta er þriðja eða fjórða sumarið sem hún er á reiðnámskeiði og er orðin bísna flink. Um helgina er hún til að mynda í tveggja daga reiðtúr útum allar trissur. Þegar við vorum fyrir vestan fékk hún að fara í smá reiðtúr inn í Heydal í Mjóafirði og þar tókum við þessa fínu mynd af henni.

Ég á eina svo dásamlega að það ætti að setja hana á flöskur



Dætur mínar eru allar dásamlegar, hver á sinn hátt, en það vill svo til að miðjan, Iðunn Ösp, er á alveg hrikalega skemmtilegum aldri þessa stundina. Í gær átti að baða dömuna en hún þvertók það með öllu nema hún fengi að fara í jólakjól þegar hún væri búin í baðinu svo hún gæti dansað í honum. Það var auðvitað látið eftir henni og hún fékk að fara í gamlan jólakjól af Kolfinnu Kötlu og dansaði í honum um alla stofuna. Ef alla skyldi kalla.

Þegar hún var orðin leið á að dansa og Þórgunnur hætt að hlæja að henni ákvað hún að skemmta systur sinni enn frekar. Hún fór og sótti uppáhalds bókina sína Litla skrímsli lærir að segja NEI, settist niður og hóf að lesa fyrir hana. Bókina kann hún spjaldanna á milli utan bókar.

„Allt val fliðsælt og hljótt. Þá val bankað á didnal. Hve getura verið. Ó nei sa el stólasklímsli, þá opna ég ekki.

Wednesday, July 1, 2009

Er þetta ekki einmitt hluti af vandamálinu?

Þar sem ég ók sem leið lá í Húsafell með fjölskylduna á föstudaginn hlustaði ég á fréttatíma ríkissjónvarpsins í útvarpinu. Þar var viðtal við konu sem átti dreng á ellefta ári sem var orðin rúm 60 kíló. Hennar umkvörtunarefni, fyrir utan að komast ekki að með drengin í aðstoð á vegum hins opinbera, var hversu mikið dýrara það er orðið að kaupa hollan mat en óhollan. Þetta er alveg laukrétt hjá henni.

Ég fór í Krónuna í gær og keypti eitt og annað sem mig vantaði, þegar heim var komið renndi ég yfir strimilinn til að kanna hvað það sem ég keypti hefði kostað. Þessa dagana er auðvitað bara keypt hollusta á mínu heimili svo ég varð að kíkja á heimasíðu Krónunnar til að fá samanburðinn.

200 gr. spínat frá Hollt og gott 529 kr
Þrjár íslenskar paprikur 680 gr. 475 kr
Líf saladblanda (hnetur og fræ) 100 gr. 389 kr
Farmers blandaðir þurrkaðir ávextir 500 gr. 979 kr
Tófú 500 gr. 549 kr

Mjólkurvörur eru vissulega ódýrari eftir því sem þær eru hollari því þær eru hollastar með engum viðbótum. Fyrir utan auðvitað Fjörmjólkina sem er dýrasta mjólkin og Fjörostinn sem er á 1262 kr. kílóið. Brauðið er líka dýrara eftir því sem það er hollara. Krónubrauð og Bónusbrauð, sem hafa 3 eða 4 % trefjainnihald (held ég) er langódýrast og langóhollast. Pasta er dýrara ef það er heilhveiti en það sem er úr hvítu hveiti og svo framvegis og framvegis.

Til samanburðar fann ég eftirfarandi.

Haribo Gullbangsar 199 kr
Krónu Súkkulaðikex (2 pk.) 359 kr
Göteborgs Ballerina choko kex 169 kr
Göteborgs Remi myntu kex 189 kr

Í Bónus er svipaða sögu að segja og í Europris var hægt að fá þrjár mismunandi gerðir af súkkulaðikexi undir 200 krónum. Lausnin felst að mínu mati reyndar ekki sykurskatti heldur í því að gera hollari vöru aðgengilegri og ódýrari.




Þá er fjölskyldan rétt einu sinni komin heim af flandri. Að þessu sinni var það minni útgáfan af fjölskyldunni sem fór á golfmót í Húsafelli, frumburðurinn er hjá einstaklingnum næstu vikuna. Fjölskyldugolfmótið, JÁ-mótið, er alltaf skemmtilegt en ég held að það hafi aldrei verið skemmtilegra en núna. Þó sló ég ekki eina einustu golfkúlu heldur skrölti bara á eftir hinum, níu holur, með litlurnar mínar í eftirdragi eða hangandi utan á mér. Veðrið og staðsetninginn hafði vitaskuld mikið að segja, hversu vel hepnað þetta var að þessu sinni og sagan hans Krissa af tröllinu á klósettinu, Ágúst Magni með hanskana, Ingvar úti í á að slá og pub-quizið hans Tómasar (í hverju ég tapaði fyrir mömmu, Gumma frænda, Ólöfu og Ástu Júlíu) hjálpaði líka til.

Að þessu sinni verður stoppað á höfuðborgarsvæðinu fram yfir helgi áður en farið verður í næstu bústaðarferð. Tíminn er nýttur vel í að hitta vini og félaga. Ég hitti Kársnesdrottningar á mánudaginn og ætla að hitta Eggertsgötugyðjur annað kvöld. Ég er svo rík.

Kjartan greyið nýtir hins vegar tíman í hið óyfirstíganlega verk að gera við bílinn sem er í einvherju skralli. Hann er svo duglegur.... karlmannlegur og skítugur.

Friday, June 26, 2009

Wacko Jacko!

Poppkóngurinn er allur. Þegar ég var smástelpa var hann í miklu uppáhaldi hjá mér en þær vinsældir hans hafa nú eitthvað dalað í gegnum árin. Því er hins vegar ekki að neita að maðurinn var ákaflega hæfileikaríkur á sínu sviði....... og kexgeðveikur.

Thursday, June 25, 2009

Af lesendum

Ég var að hafa áhyggjur af því að enginn læsi þetta blogg en Tómas frændi minn og Silja kvittuðu fyrir sig og ég hef fyrir satt að tengdó kíki við annað slagið svo ég held ótrauð áfram. Annars togast dálítið á í mér hégómagirndin sem vonast til að einhver sé að lesa það sem ég skrifa og svo spéhræðslan yfir því sem mér finnst ég þurfa að segja hérna. Mér finnst alveg nauðsynlegt að nota þetta blogg sem útrás fyrir það sem er að gerast í mínu lífi en er ekki alveg viss hversu hreiskilin ég þori að vera þegar ég veit að fólk er að lesa.

Kannski ég verði persónulegi bloggarinn, svona eins og persónulegi trúbadúrinn hjá fóstbræðrum.

Tíðindi

Ég hef óstaðfestan grun um að yngsti fjölskyldumeðlimurinn sé kominn með eina tönn. Hef ekki enn fengið hana til að klingja með því að hamra í hana með skeið enda ræðst blessað barnið á skeiðina í hvert skipti sem ég sting henni upp í hana og kjammsar á henni eins og hún sé lambakótiletta. Vesalingurinn er alveg friðlaus í gómnum.

Annars lærði hún tvö ný trix á Ísafirði. Að velta sér á magan og frussa. Það getur verið ótrúlega skemmtilegt að frussa hressilega í góða stund.

Takk fyrir

Mig langar að nota þetta þetta tækifæri og þakka Durex og RÚV hjartanlega fyrir samtal sem ég þurfti að eiga við 12 ára dóttur mína í gærkvöldi þar sem ég þurfti að útskýra fyrir henni hvað unaðskrem fyrir konur væri. Ekki svo að skilja að ég hafi roðnað og blánað yfir þessu, við mæðgurnar eigum ákaflega gott samband og getum svo sem talað um allt en mér fannst þetta bara ekki alveg tímabært. Hvers snilldar hugmynd var það að sýna þessar auglýsingar á milli 9 og 10 á kvöldin.

Wednesday, June 24, 2009

Komin heim

Þá er lokið dáindis skemmtilegu ferðalagi um Westfjords. Síðustu tvær næturnar vorum við í sumarbústað inni í Mjóafirði og keyrðum svo beint heim þaðan. Okkur ber saman um að þetta hafi verið eitt skemmtilegasta frí sem við höfum farið í. Við höfum reyndar aldrei ferðast svo langt eða lengi innanlands saman fjölskyldan. Iðunn Ösp saknar vinkonu sinnar mikið og vill helst fara aftur á Ísafjörð og mér skilst að á Ísafirði leiti Emma Katrín um allt að Iðunni Ösp. Ég er ekki í nokkrum vafa að það sem gerði fríið svo skemmtilegt var að vera í svona góðum félagskap. Við spiluðum nánast á hverju kvöldi, þegar litlu stelpurnar voru allar komnar í ró, og það leiðist okkur sko ekki þó hugsanlega hafi svefninn verið með minnsta móti.

Ekki góður dagur hjá Þórgunni Öglu í dag. Ferðaþreytan situr í henni og hún er frekar örg og pirruð en auk þess er hún að fara í skoðun á eftir, sprautu og tómt vesen. Alltaf er maður eitthvað að pína þessi grey. Hún er búin að vera dálítið horuð á meðan við vorum fyrir vestan (i.e. hún er með hor, hún er alls ekki í neinni léttvigt blessunin með fellingar niður eftir öllum lærum) og skildi ekkert í því að konan sem venjulega er svo góð við hana; knúsar hana, skiptir á henni og gefur henni brjóst, skyldi alltaf vera að gæta hana með því að klípa hana svona fast í nefið. Andstyggilegt alveg hreint.

Ég hafði sett mér (afar lauslega) markmið fyrir lok júní. Þó ég hafi ekki bætt á mig í fríinu var svindlið samt nóg til þess að ég stóð í stað. Ég er dálítið vonsvikin en held að þetta hafi verið dálítið óraunhæft þar sem við vorum í sumarfríi. Sumarfrí er reyndar dálítill prófsteinn á breyttan lífstil, þá má segja að ég hafi fallið á prófinu. Ekki svo að skilja að ég hafi verið étandi í tíma og ótíma og allra síst sælgæti en ein og ein múffa rataði nú samt ofan í mig og það var nú ekki í boði. Jæja þá hysja ég bara upp sokkana og stefni nú ótrauð á að ná næsta markmiði. Það er líka raunhæfara og en langt í það.

KOMA SVO!

Sunday, June 21, 2009

Athugun

Bara ein spurning, er einhver að lesa þetta annar en Svava Rán?

Enn á ferðalagi

Höfum það enn dásamlegt hér á Ísafirði en förum fljótlega að hugsa okkur til hreyfings. Hugmyndin er að pakka niður í dag og keyra öll inn í Mjóafjörð þar sem pabbi hennar Heiðu á sumarbústað og við ætlum að vera í næstu tvær nætur. Dásalegt alveg hreint.

Börnin skemmta sér konunglega á þessu ferðalagi. Kolfinna var svo heppin að hitta á vinkonu sína, hverrar mamma er flutt á Ísafjörð og þá hvarf Kolfinna í sólahring. Annars hefur hún skemmt sér konunglega með Ívari Tuma þrátt fyrir aldursmun og þá staðreynd að þau eru stelpa og strákur. Kolfinna átti alltaf helling af strákavinum þegar við bjuggum á Eggertsgötunni bæði í húsinu og á leikskólanum og í Melaskóla. Einhverra hluta vegna varð það svo algjört tabú þegar hún kom í Kópavoginn að leika við stráka. Hún átti einn góðan vin í bekknum til að byrja með en hann hætti að leika við hana af því það þótti ekki smart að leika við stelpur. Mér fannst það ömurlegt. Það hefur alltaf hentað henni mjög vel að leika við stráka og mér finnst það eðlilegast í heimi. Það minnkar líka feimnina og óöryggið þegar þau koma á unglingsár.

Finnst að ég ætti kannski að blogga um það sem er að gerast í Kópavoginum mínum en ég er bara í sumarfrí.

Þeim sem þekkja mig vel þykir kannski undarlegt hversu ég hef setið á mér að tjá mig um landsins gagn og nauðsynjar, það er jú frekar ólíkt mér en ég á einhvern veginn ekki orð yfir þetta allt saman. Það kemur nú samt örugglega að því að ég fer að rífast yfir þessu öllu saman.

Tuesday, June 16, 2009

Á Ísafirði

Merkilegt hvað mér finnst ég alltaf vera að vestan. Pabbi er fæddur og uppalinn Önfirðingur en ég er það auðvitað ekki. Það eina sem ég státa af er að hafa búið á Flateyri sumarið 1983 og nokkrar heimsóknir þegar ég var barn. Samt fyllist ég einhverju vestfirsku þjóðarstolti í hvert skipti sem ég kem vestur á firði. Því miður kemur stoltið ekki í veg fyrir að ég fái talsvert af hlandi fyrir hjartað þegar ég hottast eftir vestfirskum einstigum sem liggja miklu hærra í fjallshlíðum en góðu hófi gegnir.

Ég er nú búin að vera með fjölskylduna í góðu yfirlæti hjá Tuma og Heiðu á Ísafirði síðan á föstudaginn. Þau eru auðvitað, eins og gera mátti ráð fyrir, höfðingjar heim að sækja. Iðunn Ösp og Emma Katrín eru orðnar perluvinkonur enda báðar af órólegu gerðinni. Á eftir liggur leiðin í gegnum göngin, yfir í Önundarfjörð þar sem verður grafið eftir rótunum og tékkað á síðustu gömlu frænkunni sem ég á eftir á Flateyri.

Það er aðeins öðruvísi að vera á flakki með tvær krillur, eina tveggja og eina nýfædda. Allar ferðir miðast við svefntíma og hvað þeim hentar best. Ég hélt við myndum vera á flakki út um alla trissur en svo kemur í ljós að við komumst yfirleitt ekki spönn frá rassi fyrr en allir eru búnir með hvíldirnar sínar um miðjan dag. Auðvitað er hægt að láta þær sofa í bílnum en við höfum ekki gert það mikið enn.

Það er sjaldan eins erfitt að viðhalda nýjum lífsstíl og þegar maður er á ferðalagi. Við höfum þó reynt að halda sönsum en guð veit að mér finnst einhvern veginn eðlilegast að maula gotterí í bílnum og kaupa bakkelsi í öllum pissustoppum.

Tuesday, June 9, 2009

Ég finn að breyttur lífstíll hefur áhrif á líf mitt allt um kring. Hollara mataræði og aukin hreyfing gera mig jákvæða og bjartsýna. Ég er full af framkvæmdagleði og finnst ég bæði frjó og skapandi. Ég er meira drífandi og hef meiri áhuga á að fara út að leika mér en að hanga heima og gera ekki neitt. Ég er líklegri til að grípa í bók en að kveikja á sjónvarpinu og jafnvel líkleg til að setjast við tölvuna til að gera eitthvað gáfulegt. Verst er að fröken lappa er hjá lækninum og mér leiðist óskaplega að sitja við borðtölvuna á eldgömlum stól sem er að hruni kominn. Það ku ákaflega sniðugt á skrfstofustólum þegar hægt er að vagga sessunni fram og til baka, gott fyrir bakið, en það er minna sniðugt ef stóllinn átti ekki að gera það í upphafi.

Ég byrjaði daginn í dag á að fara í heljarinnar göngutúr. Fyrst fórum við Þórgunnur á Urðarhól með Iðunni Ösp og héldum svo áfram göngunni í Smárann. Ég var orðin sársvöng í Smáranum en tímdi ekki að fá mér að borða því ég vissi að heima átti ég nýjar lárperur sem ég hlakkaði til að borða með salatinu mínu. Þegar ég kom heim og ætlaði að fá mér krásirnar reyndust báðar lárperurnar, sem ég keypti á sunnudaginn bæði ónýt. Ég varð alveg bjáluð. Það er algerlega óþolandi að eyða þessum allt of fáu krónum sem maður á í fokdýran mat sem er svo ónýtur þegar maður kemur heim. Ég er alltaf að lenda í þessu bæði með lárperur og mangó. Ekki það ódýrasta í rekkanum. Ég er að hugsa um að láta þetta ekki yfir mig ganga í þetta skiptið, eins og ég er þó vön að gera heldur druslast út í Krónu og fá þetta bætt. Kanski ég skeri niður mangóinn sem ég keypti í sömu ferð áður en ég fer, bara svona til að vera viss um að hann sé ekki jafn ólystugur og lárperurnar.

Hádegismaturinn varð samt hinn lystugasti, spínat með grilluðum paprikkum og tómötum. nammi namm.

Monday, June 8, 2009

Barnalán

Barnalánið er alveg að fara með mig þessa dagna. Ég neyðist til að skrifa örblogg, bara til að minna á að ég er til, því ég er alltaf að sinna þessum yngri tveimur. Sú yngsta situr við hliðina á mér núna, ekkert sérstaklega sæl með það að mamma sé í tölvunni. Ég þarf þá að snúa mér að henni annað slagið, nokkuð snöggt og segja BU og þá skelli hlær hún. Það sem gleður enfeldinginn...

Lít hugsanlega aftur við í kvöld og blogga langt...

Thursday, June 4, 2009

Íslendingar eru alveg steinhættir að verða sólbrúnir. Ekki vegna þess að húð- og krabbameinslækknar hafa lagt til að fólk legði niður þann stórhættulega sið að liggja í sólbaði. Nei það er alltaf jafn vinsælt, ekki síst í hinum dásamlegu íslensku sundlaugum. Útskýringin liggur frekar í því að íslendingar verða miklu frekar tanaðir og vinna í taninu!

Mér verður bara illt!

Wednesday, June 3, 2009

Hárið á mér er í klessu. ég hef alltaf heyrt talað um að hárið á konum sé æðislegt á meðgöngunni. Það fór alveg fram hjá mér. Ég var sennilega of upptekin af því að vera með höfuðið á kafi ofan í postulíninu til að taka eftir því hvað haddurinn glansaði af heilbrigði. Svo kom fæðingin og nú brjóstagjöfin og það er skemmst frá því að segja að ég er komin með kollvik sem bræður mínir mættu vera stoltir af. Þess utan er hárið á mér ekki alveg búið að ákveða hvort það er slétt eða krullað svo nú er það eitthvert dularfullt millistig. Úfið og andstyggilegt. Það er voða fínt þegar ég er búin að strauja það en hver má vera að því að strauja það á hverjum degi. Nei best er að ganga bara með það í klemmu eða hnút alla daga. Það kemur líka í veg fyrir að blesað pínkubarnið reyti í burt það litla sem er eftir.

Thursday, May 28, 2009

Húsverkin

Best að reyna að affrysta nýja ísskápinn í fyrsta skipti, hvernig ætli ég fari að því.

Verst að ég fæ húsverkinn þegar ég geri húsverkin.

Í fæðingarorlofi

Ósköp eru morgnarnir erfiðir þegar maður er í fæðingarorlofi. Þegar maður er í vinnunni er ekki sá möguleiki að sitja og gúffa í sig allan morguninn. Þegar maður er í fæðingarorlofi virðist maður geta borðað endalaust fram að hádegi. Ég reyni að borða morgunmat og halda mig svo við ávexti fram að hádegi en stundum laumast eitthvað annað upp í mig. Ekki súkkulaði eða kex, svoleiðis óværa er ekki til á mínu heimli, en eitthvað annað sem betra væri að láta í friði. Svo hugsa ég um það allan morguninn hvað ég ætla að fá mér í hádegismat. Alltaf hollt og gott en ég er ekki rónni fyrr en það er komið á diskinn. Svo er ég líka yfirleitt góð, þarf ekki að vera með mat á heilanum eftir það.

Tuesday, May 26, 2009

Gott að búa í Kópavogi

Mætti Gunnari I Birgissyni á Hlíðaveginum í gær. Var mikið að hugsa um að reka gamla Subaruinn minn aðeins utan í fína jeppann hans. Kríp!

Monday, May 25, 2009

Fataskápurinn!

Það jafnast á við geðlyf að eiga góða garma! sagði góður maður einhvern tíma. Ég veit reyndar ekkert hver það var eður hvenær hann sagði það.

Ég er orðin óskaplega þreytt á því að eiga aldrei mikið af fötum. Ég kaupi mér afar sjaldan föt og þegar ég kaupi þau er yfirleitt bara tvennt sem haft er í huga. Eru þau til nógu stór og eru þau örugglega ódýr. Hundleiðinlegar forsendur báðar tvær. Oft sit ég uppi með, og geng jafnvel í, föt sem mér finnast ekkert sérstök eða passa ekkert rosalega vel. Mig langar að vera alltaf smart og eiga föt fyrir hvert tækifæri. Ég er orðin dauðleið á því að vera offeit og offátæk.

Núna samanstendur fataskápurinn minn aðallega af fötum sem ég keypti í Bandaríkjunum þegar Iðunn Ösp (miðjustjarnan) var nokkurra mánaða gömul. Þessi föt eru mörg hver lítið notuð, þar sem ég fitnaði fljótlega upp úr þeim og varð svo ólétt aftur og grenntist niður í þau aftur. Merkileg rússíbanareið á mínu heimili.

Nú hefur verið breytt um lífstíl á mínu heimili og er stefnan sett á að komast niður í kjörþyngd fyrir næsta sumar. Lífstílsbreytingin nær til allra á heimilinu, ekki svo að skilja að stjörnurnar þurfi mikið á lífstílsbreytingu að halda en þær hafa heldur ekkert við það að gera að gúffa í sig sælgæti og kruðerí öllum stundum. Hér er í boði einn nammidagur á viku og þar við situr.

Herre gud hvað ég hlakka til að kaupa mér nýja larfa þegar stærðin verður orðin ásættanlegri.

Ætli fjárhagurinn verði samt ekki svipaður!

Saturday, May 23, 2009

Í smáralindinni í gær

Ég á þrjár stjörnur. Einni fleiri en Megas sem á bara tvær. Í gær þurfti ég að sinna ýmsum erindum í Smáralindinni og tók allar stjörnurnar mínar með mér. Þar sem við sátum á Te og kaffi þurfti miðjustjarnan sem er nýlega hætt með bleyju, að fara á klósettið. Þar sem foreldrarnir voru með nefið ofan í yndælum og volgum kaffibollum og tímdu alls ekki að yfirgefa þá, var stórastjarnan send með hana á klósettið. Þegar hún var á leið til baka og glitti fyrst í foreldrana (sem voru enn í mílufjarlægð) brosti hún hringin og gól yfir alla smáralindina: „Mamma, Pabbi ég er búin að pissa OG kúka!“ ákaflega stolt. Til að tryggja það svo að foreldrarnir heyrðu örugglega hvað hún hefði verið dugleg endurtók hún svo skilaboðin i öðru hverju skrefi að borðinu okkar.

Ekki vottaði nú fyrir því að foreldrarnir skömmuðust sín fyrir stjörnuna heldur hlógu þeir ásamt hinum gestum kaffihússins að henni sem var svo krúttleg. Þegar hún svo kom að borðinu tók sig auðvitað upp gömul kaldhæðni í móðurinni sem spurði hvort hún vildi nú ekki fá lánað kallkerfi Smáralindarinnar svo það heyrðu örugglega allir í henni. Þá snerust vopnin í höndum móðurinnar því stjarnan linnti ekki látum lengi á eftir því hún vildi fá að prófa „kaglkerfi“.

Friday, May 22, 2009

Hér er ég aftur

36 ára, gift, þriggja barna móðir. Ég hef staðið mig með miklum ágætum í lífinu og gert margt sem ég er stolt af; þrjár frábærar dætur, farsælt hjónaband, tvær ágætis háskólagráður, farsæll starfsferill og svo framvegis. Ég á hins vegar enn eftir að ná tökum á heilbrigðu líferni. Ég er löngu hætt að reykja og ég drekk nú ekki í hófi (er enda búin að vera ýmist ófrísk eða með barn á brjósti síðustu 3 ár) en ég er og hef alltaf verið, allt of þung.

Mér finnst hrikalega gott að borða og ég hreyfi mig allt of lítið. Það skildi þó aldrei vera að aukin hreyfing og minna át væri rétta leiðin til að kippa þessu í liðinn?