Wednesday, September 2, 2009

Heimanám

Í morgunútvarpinu á Rás2 er rætt við einn sérfræðing í hverri viku. Í þessari viku, í morgun, var rætt við prófesor á mentasviði Háskóla Íslands, sérfræðing í málefnum nemenda. Fyrst ræddu þáttastrjórnendur við hana vítt og breitt um þær spurningar sem vakna í skólabyrjun ár hvert og síðan var síminn opnaður. Hlustendum var fjálst að spyrja um hvaðeina sem þeim lá á hjarta en aðeins eitt málefni bar á góma, börn og heimanám.

Allir sem hringdu inn sungu sama sönginn. Er heimanám ekki útelt og algjör óþarfi. Á nám ekki að fara fram að öllu leyti í skólanum. Við fullorðna fólkið reynum eftir fremsta megni að taka ekki vinnuna með okkur heim en svo ætlumst við til að börnin okkar geri það. Sérfræðingurinn hélt uppi vörnum fyrir heimanámið að vissu marki en þegar á hólminn var komið fannst mér helst að hún væri sammála hlustendum.

Ég er alveg sammála. Dóttir mín hefur frá því hún byrjaði í Kópavogsskóla glímt við allt of mikið heimanám á degi hverjum og ég hef alltaf verið alfarið á móti því. Í 2. og 3. bekk var hún stundum 2 - 3 tíma að klára heimanámið. Fullur vinnudagur fyrir lítið barn. Ég hef oft minnst á þetta við kennarana hennar í gegnum tíðina en fengið lítin hljómgrunn. Einhver hefði kannski haldið að sem fagmanneskja væri ég öryggið uppmálað þegar ég gagnrýni kennara barnsins míns en því er öfugt farið. Ég þori alls ekki að rugga bátnum og hef aldrei hátt eða skammast yfir neinu, eða yfirleitt ekki.

Þessi pistill gefur það auðvitað til kynna að í minni kennslu sé ekki farið fram á neitt heimanám en það er því miður ekki heldur rétt. Að hluta til vegna þess að ég verð að fylgja stefnu skólans sem ég kenni við og að hluta til vegna þess að ég hef ekki haft hugrekki í að marka mér mína eigin stefnu.

Það er rétt að árétta að rétt eins og sérfræðingurinn frá í morgun er ég ekki á móti heimanámi alfarið. Lestur er t.a.m. nauðsynlegur alveg frá fyrsta bekk og upp í þann 10 og til að halda ákveðinni tengingu milli heimilis og skóla er nauðsynlegt að senda ákveðin verkefni og bækur heim til að foreldrar kynnist því sem verið er að gera í skólanum. Ennfremur held ég að á unglingastigi stuðli eitthvað heimanám að agaðri og sjálfstæðari vinnubrögðum svo fremi að langstærsti hluti námsins fari fram í skólanum. Er það ekki málið?

No comments:

Post a Comment