Sunday, June 21, 2009

Enn á ferðalagi

Höfum það enn dásamlegt hér á Ísafirði en förum fljótlega að hugsa okkur til hreyfings. Hugmyndin er að pakka niður í dag og keyra öll inn í Mjóafjörð þar sem pabbi hennar Heiðu á sumarbústað og við ætlum að vera í næstu tvær nætur. Dásalegt alveg hreint.

Börnin skemmta sér konunglega á þessu ferðalagi. Kolfinna var svo heppin að hitta á vinkonu sína, hverrar mamma er flutt á Ísafjörð og þá hvarf Kolfinna í sólahring. Annars hefur hún skemmt sér konunglega með Ívari Tuma þrátt fyrir aldursmun og þá staðreynd að þau eru stelpa og strákur. Kolfinna átti alltaf helling af strákavinum þegar við bjuggum á Eggertsgötunni bæði í húsinu og á leikskólanum og í Melaskóla. Einhverra hluta vegna varð það svo algjört tabú þegar hún kom í Kópavoginn að leika við stráka. Hún átti einn góðan vin í bekknum til að byrja með en hann hætti að leika við hana af því það þótti ekki smart að leika við stelpur. Mér fannst það ömurlegt. Það hefur alltaf hentað henni mjög vel að leika við stráka og mér finnst það eðlilegast í heimi. Það minnkar líka feimnina og óöryggið þegar þau koma á unglingsár.

Finnst að ég ætti kannski að blogga um það sem er að gerast í Kópavoginum mínum en ég er bara í sumarfrí.

Þeim sem þekkja mig vel þykir kannski undarlegt hversu ég hef setið á mér að tjá mig um landsins gagn og nauðsynjar, það er jú frekar ólíkt mér en ég á einhvern veginn ekki orð yfir þetta allt saman. Það kemur nú samt örugglega að því að ég fer að rífast yfir þessu öllu saman.

No comments:

Post a Comment