Tuesday, June 9, 2009

Ég finn að breyttur lífstíll hefur áhrif á líf mitt allt um kring. Hollara mataræði og aukin hreyfing gera mig jákvæða og bjartsýna. Ég er full af framkvæmdagleði og finnst ég bæði frjó og skapandi. Ég er meira drífandi og hef meiri áhuga á að fara út að leika mér en að hanga heima og gera ekki neitt. Ég er líklegri til að grípa í bók en að kveikja á sjónvarpinu og jafnvel líkleg til að setjast við tölvuna til að gera eitthvað gáfulegt. Verst er að fröken lappa er hjá lækninum og mér leiðist óskaplega að sitja við borðtölvuna á eldgömlum stól sem er að hruni kominn. Það ku ákaflega sniðugt á skrfstofustólum þegar hægt er að vagga sessunni fram og til baka, gott fyrir bakið, en það er minna sniðugt ef stóllinn átti ekki að gera það í upphafi.

Ég byrjaði daginn í dag á að fara í heljarinnar göngutúr. Fyrst fórum við Þórgunnur á Urðarhól með Iðunni Ösp og héldum svo áfram göngunni í Smárann. Ég var orðin sársvöng í Smáranum en tímdi ekki að fá mér að borða því ég vissi að heima átti ég nýjar lárperur sem ég hlakkaði til að borða með salatinu mínu. Þegar ég kom heim og ætlaði að fá mér krásirnar reyndust báðar lárperurnar, sem ég keypti á sunnudaginn bæði ónýt. Ég varð alveg bjáluð. Það er algerlega óþolandi að eyða þessum allt of fáu krónum sem maður á í fokdýran mat sem er svo ónýtur þegar maður kemur heim. Ég er alltaf að lenda í þessu bæði með lárperur og mangó. Ekki það ódýrasta í rekkanum. Ég er að hugsa um að láta þetta ekki yfir mig ganga í þetta skiptið, eins og ég er þó vön að gera heldur druslast út í Krónu og fá þetta bætt. Kanski ég skeri niður mangóinn sem ég keypti í sömu ferð áður en ég fer, bara svona til að vera viss um að hann sé ekki jafn ólystugur og lárperurnar.

Hádegismaturinn varð samt hinn lystugasti, spínat með grilluðum paprikkum og tómötum. nammi namm.

No comments:

Post a Comment