Thursday, May 28, 2009

Húsverkin

Best að reyna að affrysta nýja ísskápinn í fyrsta skipti, hvernig ætli ég fari að því.

Verst að ég fæ húsverkinn þegar ég geri húsverkin.

Í fæðingarorlofi

Ósköp eru morgnarnir erfiðir þegar maður er í fæðingarorlofi. Þegar maður er í vinnunni er ekki sá möguleiki að sitja og gúffa í sig allan morguninn. Þegar maður er í fæðingarorlofi virðist maður geta borðað endalaust fram að hádegi. Ég reyni að borða morgunmat og halda mig svo við ávexti fram að hádegi en stundum laumast eitthvað annað upp í mig. Ekki súkkulaði eða kex, svoleiðis óværa er ekki til á mínu heimli, en eitthvað annað sem betra væri að láta í friði. Svo hugsa ég um það allan morguninn hvað ég ætla að fá mér í hádegismat. Alltaf hollt og gott en ég er ekki rónni fyrr en það er komið á diskinn. Svo er ég líka yfirleitt góð, þarf ekki að vera með mat á heilanum eftir það.

Tuesday, May 26, 2009

Gott að búa í Kópavogi

Mætti Gunnari I Birgissyni á Hlíðaveginum í gær. Var mikið að hugsa um að reka gamla Subaruinn minn aðeins utan í fína jeppann hans. Kríp!

Monday, May 25, 2009

Fataskápurinn!

Það jafnast á við geðlyf að eiga góða garma! sagði góður maður einhvern tíma. Ég veit reyndar ekkert hver það var eður hvenær hann sagði það.

Ég er orðin óskaplega þreytt á því að eiga aldrei mikið af fötum. Ég kaupi mér afar sjaldan föt og þegar ég kaupi þau er yfirleitt bara tvennt sem haft er í huga. Eru þau til nógu stór og eru þau örugglega ódýr. Hundleiðinlegar forsendur báðar tvær. Oft sit ég uppi með, og geng jafnvel í, föt sem mér finnast ekkert sérstök eða passa ekkert rosalega vel. Mig langar að vera alltaf smart og eiga föt fyrir hvert tækifæri. Ég er orðin dauðleið á því að vera offeit og offátæk.

Núna samanstendur fataskápurinn minn aðallega af fötum sem ég keypti í Bandaríkjunum þegar Iðunn Ösp (miðjustjarnan) var nokkurra mánaða gömul. Þessi föt eru mörg hver lítið notuð, þar sem ég fitnaði fljótlega upp úr þeim og varð svo ólétt aftur og grenntist niður í þau aftur. Merkileg rússíbanareið á mínu heimili.

Nú hefur verið breytt um lífstíl á mínu heimili og er stefnan sett á að komast niður í kjörþyngd fyrir næsta sumar. Lífstílsbreytingin nær til allra á heimilinu, ekki svo að skilja að stjörnurnar þurfi mikið á lífstílsbreytingu að halda en þær hafa heldur ekkert við það að gera að gúffa í sig sælgæti og kruðerí öllum stundum. Hér er í boði einn nammidagur á viku og þar við situr.

Herre gud hvað ég hlakka til að kaupa mér nýja larfa þegar stærðin verður orðin ásættanlegri.

Ætli fjárhagurinn verði samt ekki svipaður!

Saturday, May 23, 2009

Í smáralindinni í gær

Ég á þrjár stjörnur. Einni fleiri en Megas sem á bara tvær. Í gær þurfti ég að sinna ýmsum erindum í Smáralindinni og tók allar stjörnurnar mínar með mér. Þar sem við sátum á Te og kaffi þurfti miðjustjarnan sem er nýlega hætt með bleyju, að fara á klósettið. Þar sem foreldrarnir voru með nefið ofan í yndælum og volgum kaffibollum og tímdu alls ekki að yfirgefa þá, var stórastjarnan send með hana á klósettið. Þegar hún var á leið til baka og glitti fyrst í foreldrana (sem voru enn í mílufjarlægð) brosti hún hringin og gól yfir alla smáralindina: „Mamma, Pabbi ég er búin að pissa OG kúka!“ ákaflega stolt. Til að tryggja það svo að foreldrarnir heyrðu örugglega hvað hún hefði verið dugleg endurtók hún svo skilaboðin i öðru hverju skrefi að borðinu okkar.

Ekki vottaði nú fyrir því að foreldrarnir skömmuðust sín fyrir stjörnuna heldur hlógu þeir ásamt hinum gestum kaffihússins að henni sem var svo krúttleg. Þegar hún svo kom að borðinu tók sig auðvitað upp gömul kaldhæðni í móðurinni sem spurði hvort hún vildi nú ekki fá lánað kallkerfi Smáralindarinnar svo það heyrðu örugglega allir í henni. Þá snerust vopnin í höndum móðurinnar því stjarnan linnti ekki látum lengi á eftir því hún vildi fá að prófa „kaglkerfi“.

Friday, May 22, 2009

Hér er ég aftur

36 ára, gift, þriggja barna móðir. Ég hef staðið mig með miklum ágætum í lífinu og gert margt sem ég er stolt af; þrjár frábærar dætur, farsælt hjónaband, tvær ágætis háskólagráður, farsæll starfsferill og svo framvegis. Ég á hins vegar enn eftir að ná tökum á heilbrigðu líferni. Ég er löngu hætt að reykja og ég drekk nú ekki í hófi (er enda búin að vera ýmist ófrísk eða með barn á brjósti síðustu 3 ár) en ég er og hef alltaf verið, allt of þung.

Mér finnst hrikalega gott að borða og ég hreyfi mig allt of lítið. Það skildi þó aldrei vera að aukin hreyfing og minna át væri rétta leiðin til að kippa þessu í liðinn?