Tuesday, June 16, 2009

Á Ísafirði

Merkilegt hvað mér finnst ég alltaf vera að vestan. Pabbi er fæddur og uppalinn Önfirðingur en ég er það auðvitað ekki. Það eina sem ég státa af er að hafa búið á Flateyri sumarið 1983 og nokkrar heimsóknir þegar ég var barn. Samt fyllist ég einhverju vestfirsku þjóðarstolti í hvert skipti sem ég kem vestur á firði. Því miður kemur stoltið ekki í veg fyrir að ég fái talsvert af hlandi fyrir hjartað þegar ég hottast eftir vestfirskum einstigum sem liggja miklu hærra í fjallshlíðum en góðu hófi gegnir.

Ég er nú búin að vera með fjölskylduna í góðu yfirlæti hjá Tuma og Heiðu á Ísafirði síðan á föstudaginn. Þau eru auðvitað, eins og gera mátti ráð fyrir, höfðingjar heim að sækja. Iðunn Ösp og Emma Katrín eru orðnar perluvinkonur enda báðar af órólegu gerðinni. Á eftir liggur leiðin í gegnum göngin, yfir í Önundarfjörð þar sem verður grafið eftir rótunum og tékkað á síðustu gömlu frænkunni sem ég á eftir á Flateyri.

Það er aðeins öðruvísi að vera á flakki með tvær krillur, eina tveggja og eina nýfædda. Allar ferðir miðast við svefntíma og hvað þeim hentar best. Ég hélt við myndum vera á flakki út um alla trissur en svo kemur í ljós að við komumst yfirleitt ekki spönn frá rassi fyrr en allir eru búnir með hvíldirnar sínar um miðjan dag. Auðvitað er hægt að láta þær sofa í bílnum en við höfum ekki gert það mikið enn.

Það er sjaldan eins erfitt að viðhalda nýjum lífsstíl og þegar maður er á ferðalagi. Við höfum þó reynt að halda sönsum en guð veit að mér finnst einhvern veginn eðlilegast að maula gotterí í bílnum og kaupa bakkelsi í öllum pissustoppum.

1 comment:

  1. Vestfirðir eru náttlega svo geggjað kúl. Og ef ykkur tekst að vera í fríi og nokkurn vegin samræma þqð við lífstíl þá er hægt að strika eitt "Non-Weight Loss Goal" af listanum. Þetta snýst allt um að njóta lífsins og frí eru hluti af lífinu!

    ReplyDelete