Monday, May 25, 2009

Fataskápurinn!

Það jafnast á við geðlyf að eiga góða garma! sagði góður maður einhvern tíma. Ég veit reyndar ekkert hver það var eður hvenær hann sagði það.

Ég er orðin óskaplega þreytt á því að eiga aldrei mikið af fötum. Ég kaupi mér afar sjaldan föt og þegar ég kaupi þau er yfirleitt bara tvennt sem haft er í huga. Eru þau til nógu stór og eru þau örugglega ódýr. Hundleiðinlegar forsendur báðar tvær. Oft sit ég uppi með, og geng jafnvel í, föt sem mér finnast ekkert sérstök eða passa ekkert rosalega vel. Mig langar að vera alltaf smart og eiga föt fyrir hvert tækifæri. Ég er orðin dauðleið á því að vera offeit og offátæk.

Núna samanstendur fataskápurinn minn aðallega af fötum sem ég keypti í Bandaríkjunum þegar Iðunn Ösp (miðjustjarnan) var nokkurra mánaða gömul. Þessi föt eru mörg hver lítið notuð, þar sem ég fitnaði fljótlega upp úr þeim og varð svo ólétt aftur og grenntist niður í þau aftur. Merkileg rússíbanareið á mínu heimili.

Nú hefur verið breytt um lífstíl á mínu heimili og er stefnan sett á að komast niður í kjörþyngd fyrir næsta sumar. Lífstílsbreytingin nær til allra á heimilinu, ekki svo að skilja að stjörnurnar þurfi mikið á lífstílsbreytingu að halda en þær hafa heldur ekkert við það að gera að gúffa í sig sælgæti og kruðerí öllum stundum. Hér er í boði einn nammidagur á viku og þar við situr.

Herre gud hvað ég hlakka til að kaupa mér nýja larfa þegar stærðin verður orðin ásættanlegri.

Ætli fjárhagurinn verði samt ekki svipaður!

1 comment:

  1. Þegar við verðum orðnar nógu mjóar til að versla föt sem eru flott, vel sniðin og passa vel þá segjum við skítt með fjárhaginn og kaupum algalla! Þú kemur bara hingað í verslunarleiðangur.

    ReplyDelete