Tuesday, July 28, 2009

Mikið væri nú ljúft ef yngsta barnið á heimilinu tæki snuddu. Hún hefur talsvert stundað það upp á síðkastið að vakna á nóttunni væntanlega vegna þess að tennurnar eru að pirra hana. Hún vaknar þá alls ekki til að drekka heldur þarf hún bara smá huggun og þá kæmi snuð sér vel.

Annars leit fyrsta tönnin dagsins ljós í vikunni, á meðan við vorum hjá mömmu og pabba. Nú bíð ég bara eftir því að hún feti í fótspor systur sinnar og prófi nýju tennurnar á geirvörtunum hennar mömmu sinnar.

Friday, July 24, 2009

Loksins

Þar settist hún loksins við tölvuna kerlingin. Mónótónískt líf mitt hefur verið svo svæfandi síðan sumarfríinu (skemmtilega stuðlað) hans Kjartans lauk að ég hef ekki haft frá nokkru að segja. Mæðgurnar eru búnar að hafa það notalegt í Þorlákshöfn síðustu vikuna og halda aftur heim á leið í dag. Sundlaugin í Þorlákshöfn fær hæstu einkunn og höfum við því haldið þar mikið til.

Um helstu fréttir hef ég þetta að segja. ESB JESS, Icesave helst ekki, unglingar sem keyra sofandi landshorna á milli; kaupi það ekki alveg hrátt.

Saturday, July 11, 2009

Lífið er yndislegt...

...ég geri það sem ég vil. Skildi maður verða leiður á því til lengdar að vera til???

Ég held varla.

Sunday, July 5, 2009

Frumburðurinn


Til að gæta fyllsta réttlætis þarf auðvitað að fjalla aðeins um frumburðinn líka. Hann er búinn að vera í föðurhúsum og leggur þar stund á reiðlistir. Þetta er þriðja eða fjórða sumarið sem hún er á reiðnámskeiði og er orðin bísna flink. Um helgina er hún til að mynda í tveggja daga reiðtúr útum allar trissur. Þegar við vorum fyrir vestan fékk hún að fara í smá reiðtúr inn í Heydal í Mjóafirði og þar tókum við þessa fínu mynd af henni.

Ég á eina svo dásamlega að það ætti að setja hana á flöskur



Dætur mínar eru allar dásamlegar, hver á sinn hátt, en það vill svo til að miðjan, Iðunn Ösp, er á alveg hrikalega skemmtilegum aldri þessa stundina. Í gær átti að baða dömuna en hún þvertók það með öllu nema hún fengi að fara í jólakjól þegar hún væri búin í baðinu svo hún gæti dansað í honum. Það var auðvitað látið eftir henni og hún fékk að fara í gamlan jólakjól af Kolfinnu Kötlu og dansaði í honum um alla stofuna. Ef alla skyldi kalla.

Þegar hún var orðin leið á að dansa og Þórgunnur hætt að hlæja að henni ákvað hún að skemmta systur sinni enn frekar. Hún fór og sótti uppáhalds bókina sína Litla skrímsli lærir að segja NEI, settist niður og hóf að lesa fyrir hana. Bókina kann hún spjaldanna á milli utan bókar.

„Allt val fliðsælt og hljótt. Þá val bankað á didnal. Hve getura verið. Ó nei sa el stólasklímsli, þá opna ég ekki.

Wednesday, July 1, 2009

Er þetta ekki einmitt hluti af vandamálinu?

Þar sem ég ók sem leið lá í Húsafell með fjölskylduna á föstudaginn hlustaði ég á fréttatíma ríkissjónvarpsins í útvarpinu. Þar var viðtal við konu sem átti dreng á ellefta ári sem var orðin rúm 60 kíló. Hennar umkvörtunarefni, fyrir utan að komast ekki að með drengin í aðstoð á vegum hins opinbera, var hversu mikið dýrara það er orðið að kaupa hollan mat en óhollan. Þetta er alveg laukrétt hjá henni.

Ég fór í Krónuna í gær og keypti eitt og annað sem mig vantaði, þegar heim var komið renndi ég yfir strimilinn til að kanna hvað það sem ég keypti hefði kostað. Þessa dagana er auðvitað bara keypt hollusta á mínu heimili svo ég varð að kíkja á heimasíðu Krónunnar til að fá samanburðinn.

200 gr. spínat frá Hollt og gott 529 kr
Þrjár íslenskar paprikur 680 gr. 475 kr
Líf saladblanda (hnetur og fræ) 100 gr. 389 kr
Farmers blandaðir þurrkaðir ávextir 500 gr. 979 kr
Tófú 500 gr. 549 kr

Mjólkurvörur eru vissulega ódýrari eftir því sem þær eru hollari því þær eru hollastar með engum viðbótum. Fyrir utan auðvitað Fjörmjólkina sem er dýrasta mjólkin og Fjörostinn sem er á 1262 kr. kílóið. Brauðið er líka dýrara eftir því sem það er hollara. Krónubrauð og Bónusbrauð, sem hafa 3 eða 4 % trefjainnihald (held ég) er langódýrast og langóhollast. Pasta er dýrara ef það er heilhveiti en það sem er úr hvítu hveiti og svo framvegis og framvegis.

Til samanburðar fann ég eftirfarandi.

Haribo Gullbangsar 199 kr
Krónu Súkkulaðikex (2 pk.) 359 kr
Göteborgs Ballerina choko kex 169 kr
Göteborgs Remi myntu kex 189 kr

Í Bónus er svipaða sögu að segja og í Europris var hægt að fá þrjár mismunandi gerðir af súkkulaðikexi undir 200 krónum. Lausnin felst að mínu mati reyndar ekki sykurskatti heldur í því að gera hollari vöru aðgengilegri og ódýrari.




Þá er fjölskyldan rétt einu sinni komin heim af flandri. Að þessu sinni var það minni útgáfan af fjölskyldunni sem fór á golfmót í Húsafelli, frumburðurinn er hjá einstaklingnum næstu vikuna. Fjölskyldugolfmótið, JÁ-mótið, er alltaf skemmtilegt en ég held að það hafi aldrei verið skemmtilegra en núna. Þó sló ég ekki eina einustu golfkúlu heldur skrölti bara á eftir hinum, níu holur, með litlurnar mínar í eftirdragi eða hangandi utan á mér. Veðrið og staðsetninginn hafði vitaskuld mikið að segja, hversu vel hepnað þetta var að þessu sinni og sagan hans Krissa af tröllinu á klósettinu, Ágúst Magni með hanskana, Ingvar úti í á að slá og pub-quizið hans Tómasar (í hverju ég tapaði fyrir mömmu, Gumma frænda, Ólöfu og Ástu Júlíu) hjálpaði líka til.

Að þessu sinni verður stoppað á höfuðborgarsvæðinu fram yfir helgi áður en farið verður í næstu bústaðarferð. Tíminn er nýttur vel í að hitta vini og félaga. Ég hitti Kársnesdrottningar á mánudaginn og ætla að hitta Eggertsgötugyðjur annað kvöld. Ég er svo rík.

Kjartan greyið nýtir hins vegar tíman í hið óyfirstíganlega verk að gera við bílinn sem er í einvherju skralli. Hann er svo duglegur.... karlmannlegur og skítugur.