Wednesday, June 24, 2009

Komin heim

Þá er lokið dáindis skemmtilegu ferðalagi um Westfjords. Síðustu tvær næturnar vorum við í sumarbústað inni í Mjóafirði og keyrðum svo beint heim þaðan. Okkur ber saman um að þetta hafi verið eitt skemmtilegasta frí sem við höfum farið í. Við höfum reyndar aldrei ferðast svo langt eða lengi innanlands saman fjölskyldan. Iðunn Ösp saknar vinkonu sinnar mikið og vill helst fara aftur á Ísafjörð og mér skilst að á Ísafirði leiti Emma Katrín um allt að Iðunni Ösp. Ég er ekki í nokkrum vafa að það sem gerði fríið svo skemmtilegt var að vera í svona góðum félagskap. Við spiluðum nánast á hverju kvöldi, þegar litlu stelpurnar voru allar komnar í ró, og það leiðist okkur sko ekki þó hugsanlega hafi svefninn verið með minnsta móti.

Ekki góður dagur hjá Þórgunni Öglu í dag. Ferðaþreytan situr í henni og hún er frekar örg og pirruð en auk þess er hún að fara í skoðun á eftir, sprautu og tómt vesen. Alltaf er maður eitthvað að pína þessi grey. Hún er búin að vera dálítið horuð á meðan við vorum fyrir vestan (i.e. hún er með hor, hún er alls ekki í neinni léttvigt blessunin með fellingar niður eftir öllum lærum) og skildi ekkert í því að konan sem venjulega er svo góð við hana; knúsar hana, skiptir á henni og gefur henni brjóst, skyldi alltaf vera að gæta hana með því að klípa hana svona fast í nefið. Andstyggilegt alveg hreint.

Ég hafði sett mér (afar lauslega) markmið fyrir lok júní. Þó ég hafi ekki bætt á mig í fríinu var svindlið samt nóg til þess að ég stóð í stað. Ég er dálítið vonsvikin en held að þetta hafi verið dálítið óraunhæft þar sem við vorum í sumarfríi. Sumarfrí er reyndar dálítill prófsteinn á breyttan lífstil, þá má segja að ég hafi fallið á prófinu. Ekki svo að skilja að ég hafi verið étandi í tíma og ótíma og allra síst sælgæti en ein og ein múffa rataði nú samt ofan í mig og það var nú ekki í boði. Jæja þá hysja ég bara upp sokkana og stefni nú ótrauð á að ná næsta markmiði. Það er líka raunhæfara og en langt í það.

KOMA SVO!

2 comments: