Monday, August 17, 2009

Er ég nokkuð slæm móðir ef mér þykir dásamlegt að sumarfríinu í leikskólanum lauk í morgun og gleðigjafinn fór aftur á leikskólann?
Nei það held ég ekki. Hún er yndisleg og skemmtileg og við erum búnar að hafa það gott í sumarfríinu en hún er líka handfylli svo það var bara fínt að afhenda Brynju og Agnesi hana til umsjónar í morgun. Hún var líka ósköp kát að komast aftur á leikskólann.
Sumarfríinu hans Kjartans hagaði þannig til í sumar að hann gat ekki verið í sumarfríi á sama tíma og hún var í fríi og stóra hjálparhellan mín fór að þvælast um landið með pabba sínum á sama tíma svo ég var að miklu leyti ein með þessar tvær litlu. Ekkert vandamál svo sem en ljómandi gott að leiksólinn ég byrjaður aftur. Nú á ég enn eftir tvo mánuði í fæðingarorlofi með Þórgunni Öglu svo það er jafn gott að nýta tímann vel.
Í morgun nýtti ég tíman einmitt ljómandi vel og skellti mér í laugardalinn í kerrupúl. Algjörlega frábær hugmynd. virkilega góð hreyfing, útivera og sviti. Þórgunni hefur aldrei þótt það sérstaklega góð hugmynd að nota vagninn í annað en að sofa í honum og henni þykir alls ekki skemmtilegt að fara í göngutúra svo hún var ekki skemmtilegasta barnið í hópnum. Hún skal nú læra þetta samt blessunin. Á miðvikudaginn ætla ég nú samt að stíla inn á það að hún sofi á meðan. Held að það sé best.