Wednesday, July 1, 2009

Er þetta ekki einmitt hluti af vandamálinu?

Þar sem ég ók sem leið lá í Húsafell með fjölskylduna á föstudaginn hlustaði ég á fréttatíma ríkissjónvarpsins í útvarpinu. Þar var viðtal við konu sem átti dreng á ellefta ári sem var orðin rúm 60 kíló. Hennar umkvörtunarefni, fyrir utan að komast ekki að með drengin í aðstoð á vegum hins opinbera, var hversu mikið dýrara það er orðið að kaupa hollan mat en óhollan. Þetta er alveg laukrétt hjá henni.

Ég fór í Krónuna í gær og keypti eitt og annað sem mig vantaði, þegar heim var komið renndi ég yfir strimilinn til að kanna hvað það sem ég keypti hefði kostað. Þessa dagana er auðvitað bara keypt hollusta á mínu heimili svo ég varð að kíkja á heimasíðu Krónunnar til að fá samanburðinn.

200 gr. spínat frá Hollt og gott 529 kr
Þrjár íslenskar paprikur 680 gr. 475 kr
Líf saladblanda (hnetur og fræ) 100 gr. 389 kr
Farmers blandaðir þurrkaðir ávextir 500 gr. 979 kr
Tófú 500 gr. 549 kr

Mjólkurvörur eru vissulega ódýrari eftir því sem þær eru hollari því þær eru hollastar með engum viðbótum. Fyrir utan auðvitað Fjörmjólkina sem er dýrasta mjólkin og Fjörostinn sem er á 1262 kr. kílóið. Brauðið er líka dýrara eftir því sem það er hollara. Krónubrauð og Bónusbrauð, sem hafa 3 eða 4 % trefjainnihald (held ég) er langódýrast og langóhollast. Pasta er dýrara ef það er heilhveiti en það sem er úr hvítu hveiti og svo framvegis og framvegis.

Til samanburðar fann ég eftirfarandi.

Haribo Gullbangsar 199 kr
Krónu Súkkulaðikex (2 pk.) 359 kr
Göteborgs Ballerina choko kex 169 kr
Göteborgs Remi myntu kex 189 kr

Í Bónus er svipaða sögu að segja og í Europris var hægt að fá þrjár mismunandi gerðir af súkkulaðikexi undir 200 krónum. Lausnin felst að mínu mati reyndar ekki sykurskatti heldur í því að gera hollari vöru aðgengilegri og ódýrari.




3 comments:

  1. hvurn fjárann á það að þýða að laumublogga fyrir manni?!
    Nanna

    ReplyDelete
  2. Var andskotann ekkert að laumublogga. Er búin að setja það margoft inn á facebook að ég sé farin að blogga á ný.

    ReplyDelete